Íslendingar gáfu út hlutabréf miklu síðar en aðrar þjóðir, enda var rekstur hérlendis í mýflugumynd lengi framan af, eða þangað til Skúli Magnússon fógeti hóf rekstur Innréttinganna. Eftir það komu fram eitt og eitt félag en það var ekki fyrr en á 20. öld sem félögum fjölgaði og því samfara útgáfa hlutabréfa.

Einungis efnamenn gátu keypt þessi bréf og það var ekki fyrr en með Eimskipafélagi Íslands sem hlutabréfaútgáfa komst á skrið þannig að almenningi bauðst að kaupa á viðráðanlegu verði, og helgaðist m.a. af því að reynt var að höfða til þjóðrækni landsmanna til að koma á fót íslensku skipafélagi. Stofnhluthafar voru um 14 þúsund talsins, eða um 15% íslensku þjóðarinnar á þeim tíma, en innan þeirra tölu var stór hópur VesturÍslendinga.

Sjá einnig: Fágætustu hlutabréf Íslands

Á sýningu Myntsafnarafélags Íslands um helgina er líka að finna áhugavert safn ávísana og víxla, einkum frá Íslandsbanka og Landsbanka. Þar á meðal er líklega hæsti víxill Íslandssögunnar, víxill frá Íslandsbanka gefinn út í nafni Elíasar Stefánssonar útgerðarmanns, en að núvirði er hann um 500 milljónir króna. Hann var gefinn út 6. desember 1920 til þriggja mánaða, en rúmum tíu dögum síðar, þann 17. desember, lést Elías eftir erfið veikindi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .