500 umsóknir um sérhæfð sumarstörf hafa borist upplýsingatæknifyrirtækinu Origo á síðustu vikum. Þá hafa um hátt í 1.100 almennar umsóknir borist vegna auglýstra starfa hjá fyrirtækinu frá áramótum. Mannauðsstjóri Origo segir að fjöldi umsókna beri vott um sífellt fleiri vilji hasla sér völl í upplýsingatækni enda óvenju spennandi tímar framundan.

„Fjöldi umsókna er afar ánægjulegur og sýnir að háskólamenntaðir og þeir sem eru með gráðu í tækninámi hafa mikinn áhuga á að starfa í upplýsingatækni,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Origo. „Það skiptir miklu máli að búa yfir öflugum hópi starfsfólks nú þegar upplýsingatækni er að umbylta rekstri fyrirtækja og mun gera í enn meira mæli á komandi árum."

530 starfa hjá Origo og dótturfélögunum Tempo og Applicon Svíþjóð. Frestur til að sækja um sumstarf hjá Origo rennur út 5. apríl.
Heldur fleiri karlar en konur hafa sótt um störf hjá félaginu að undanförnu en það leggur engu að síður mikla áherslu á að jafna hlut kynjanna, að sögn Drafnar.

„Það hefur loðað við upplýsingatæknigeirann að karlar hafa verið í meirihluta. Origo hefur einsett sér með skýrri stefnu og framkvæmdaáætlun jafnréttismála að vinna að því að fjölga konum,“ segir Dröfn. „Um er að ræða langtíma verkefni en við finnum að vinna okkar er nú þegar farin að skila árangri. Þá er félagið að vinna í ferli jafnlaunavottunar og verður vottað fyrir lok árs."