Boðaðar mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum vaxandi verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins voru samþykktar á ríkisstjórnarfundi í morgun, að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Áætlaður kostnaður aðgerðanna í ár er um það bil 5 milljarðar króna.

Viðskiptablaðið hafði eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í gær að unnið væri að aðgerðunum.

Bætur almannatrygginga verða hækkaðar um 3% og húsnæðisbætur hækka um 10% um næstu mánaðamót. Þá verður sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur að fjárhæð 20.000 krónur með hverju barni. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í mánuðinum.

Ársverðbólga á Íslandi mældist 7,2% í apríl og jókst um 0,5 prósentur frá fyrri mánuði. Seðlabanki Íslands tilkynnti á miðvikudaginn um 100 punkta vaxtahækkun og eru stýrivextir nú 3,75%. Bankinn boðaði einnig frekari vaxtahækkanir á næstunni.

„Ríkisstjórnin telur brýnt að koma til móts við þann hóp sem hækkandi verðbólga mun bitna verst á og það strax. Ríkisstjórnin mun engu að síður leggja áherslu á aðhaldssöm ríkisfjármál til að styðja við peningastefnu Seðlabankans,“ segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Heimili í ólíkri stöðu til að takast á við verðlagshækkanir

Fram kemur að kostnaður vegna hækkun bóta almannatrygginga er áætlaður 3,0-3,5 milljarðar króna á árinu og 5,0-5,5 milljarðar á ársgrundvelli. Varanleg útgjaldaaukning vegna hækkunar bóta almannatrygginga á árinu nemur því hátt í 14 milljarða króna.

Ríkisstjórnin bendir á að bætur ellilífeyrisþega hækkuðu um 4,6% og bætur örorkulífeyrisþega um 5,6% síðustu áramót. Í ljósi verðlagsþróunar verði bætur hækkaðar um 3% þann 1. júní en samtímis  hækka framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna sérstakrar uppbótar einnig um 3%. „Nýtist því hækkunin mest þeim sem lægstar hafa tekjurnar.“

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní og hækka frítekjumörk húsnæðisbóta um 3% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 milljónum á yfirstandandi ári og um 1 milljarði á ársgrundvelli. Fram kemur að tæplega helmingur heimila séu á leigumarkaði í húsnæðisbótakerfinu, samkvæmt mati HMS, en áætlað er að í það minnsta 70% þeirra séu með vísitölutengda leigusamninga.

Þá er áætlað að 20 þúsund króna barnabótaauki sem fylgi með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur feli í sér 1,1 milljarð króna í kostnað. Þá kemur fram að endurskoðun á barnabótakerfinu standi yfir til að meginmarkmiðum kerfisins náist betur.

„Þótt fjárhagsstaða heimila sé almennt sterk og kaupmáttur sé enn að aukast eru heimili í ólíkri stöðu til að takast á við vaxta- og verðlagshækkanir. Þess vegna er sérstaklega horft til fyrrnefndra hópa í mótvægisaðgerðunum eftir ítarlega greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.“