Skiptum er lokið á félaginu Norðlingabraut 8 ehf. Engar eignir fundust upp í lýstar kröfur en þær námu rúmum 578 milljón krónum. Frá þessu er greint í Lögbirtingablaðinu.

Í Norðlingabraut 8 má finna verslun Würth á Íslandi. Húsið var tekið í notkun í maí 2017 og mætti sjálfur prófessor Würth á staðinn auk fylgdarliðs. Þá var biskup Íslands fenginn til að blessa húsið. Það er rétt að taka það fram að verslanarekstur Würth er ótengdur félaginu Norðlingaholti 8.

Norðlingabraut 8 var árið 2014 í eigu Eignarhaldsfélagsins Markarinnar sem er í eigu Valdimars Grímssonar. Félagið hefur ekki skilað ársreikningi síðan þá.

Leiðrétting 15.45: Fréttinni hefur verið breytt. Upphafleg mynd sýndi merki Würth og hefur henni verið skipt út. Þá er rétt að ítreka að Norðlingabraut 8 fór í þrot en ekki rekstur Würth. Beðist er afsökunar á upphaflegri framsetningu.