Í Reykjavík er bókunarstaða hótela almennt um átta prósent sem er náttúrulega alveg skelfilegt. Það eina sem tryggir eitthvert tekjustreymi eru veitingarnar. Þar erum við heppin að því leytinu til að Íslendingar koma svolítið bæði á veitingastaðinn okkar og á barinn. Herbergjatekjurnar eru hins vegar það eina sem skiptir okkur verulegu máli,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótel Sögu og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hótelið er alls með 236 herbergi en hefur ákveðið að loka öllum nema 60. Þegar bókunarstaðan fer lægst segir Ingibjörg að um tíu til tólf herbergi séu í útleigu. Félagið tapaði alls 402 milljónum króna árið 2019 samanborið við 182 milljóna króna tap árið áður. Eigið fé félagsins var neikvætt um tæplega 400 milljónir króna í lok ársins 2019.

Þann 8. júlí síðastliðinn var bæði Hótel Sögu og Bændahöllinni, sem rekur fasteign Hótel Sögu, veitt heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Úrræðið gildir til 7. október en ekki liggur fyrir hvort hótelið mun sækja um framlengingu.

Slíkt verður skoðað þegar þar að kemur enda óvissan mikil eins og er en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta fyrirtæki fengið greiðsluskjól í áföngum í allt að ár. Eins og er hafa viðskiptabönkunum borist 16 umsóknir um greiðsluskjól, samkvæmt frétt Vísis um málið.

Úrræði ríkisins reynast misvel

„Það er vegna greiðsluskjólsins sem við höfum getað verið í rekstri en framhaldið er algjör óvissa. Uppsagnarstyrkirnir nýttust okkur mjög vel enda hefðum við aldrei getað haldið áfram á hlutabótaleiðinni með jafn marga starfsmenn og við vorum með. Á sínum tíma klipptum við í raun niður allt og erum núna bara með það nauðsynlegasta til þess að halda súrefni í fyrirtækinu,“ segir Ingibjörg en félagið nýtti hlutabótaleiðina í einn mánuð.

Félagið hefur ekki í hyggju að nýta sér lánaúrræði ríkisins. Þann 9. september hafði ríkið alls veitt 580 fyrirtækjum úrræðið að fjárhæð 4,4 milljarða króna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er: