Svissneski fjárfestingabankinn UBS var í dag dæmdur til að greiða samtals 4,5 milljarða evra, jafngildi yfir 600 milljarða króna, í sekt og skaðabætur fyrir að aðstoða ríka viðskiptavini við skattsvik. Financial Times segir frá.

Franski dómstóllinn sem komst að niðurstöðunni dæmdi bankann til að greiða 3,7 milljarða evra í sekt, sem er sú hæsta í skattamálum í sögu Frakklands, og 800 milljónir evra í skaðabætur til franska ríkisins, fyrir að þvætta ágóða skattsvika og falast eftir viðskiptavinum í Frakklandi á ólögmætan hátt.

Forsvarsmenn bankans lýstu yfir mikilli andstöðu við dóminn, og sögðu málinu verða áfrýjað. Þeir sögðu málið byggt á ásökunum fyrrum starfsmanna sem ættu sér enga stoð í raunveruleikanum, en engin haldbær sönnunargögn hefðu verið lögð fram.

Dómurinn kemur í kjölfar sjö ára rannsóknar franskra yfirvalda, sem sökuðu bankann um að beita bellibrögðum í anda James Bond til að fá til sín viðskiptavini og hjálpa þeim að þvætta peninga þeirra. Sem dæmi hefðu þeir notað harða diska sem eyddu sér sjálfir og nafnspjöld án kennimerkja til að næla sér í viðskiptavini í laumi á viðskiptatengdum viðburðum.

Hlutabréfaverð bankans féll í kjölfar dómsins um tæp 5%, en greiningaraðilar segja sektina mun hærri en búist var við. Áfrýjunarferlið er sagt munu taka mörg ár. Málið fari fyrst fyrir áfrýjunardómstól, sem taki það fyrir á ný í heild sinni, og svo þaðan fyrir æðri dómstól.