Veitingastaðurinn Rikki Chan hagnaðist um 8,6 milljónir árið 2019, en hagnaður dróst saman um rúm 62% frá fyrra ári þegar hagnaður var 22,8 milljónir.

Velta félagsins lækkaði um 3,6% á milli ára og nam 246,5 milljónum króna en rekstrargjöld hækkuðu um 2,1% og námu 237,8 milljónum króna.

Laun og launatengd gjöld jukust um rúm 9% og námu um 96 milljónum króna en að jafnaði voru tólf starfsmenn starfandi hjá félaginu.

Eignir félagsins námu rúmum 96 milljónum í árslok 2019, en eigið fé félagsins nam rúmum 90 milljónum og skuldir tæpum 6 milljónum.

Í árslok 2018 námu eignir félagsins 107,5 milljónum króna, eigið fé nam rúmum 98 milljónum og skuldir rúmum 9 milljónum. Eiginfjárhlutfall félagsins hækkaði því milli ára úr 91,4% í 93,8%.

Fram kemur í ársreikningnum að hann hafi ekki verið endurskoðaður og grundvöllur hans þar af leiðandi ekki verið sannreyndur, en Guðmundur R. Guðmundsson er skoðunarmaður ársreikningsins. Ekki er fjallað um áhrif kórónuveirufaraldursins á rekstur veitingastaðarins árið 2020.

Gunnar Davíð Chan er stjórnarformaður félagsins, en Rikki Chan er í jafnri eigu Gunnars og Önnu Gretu Gunnarsdóttur.