Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll í mars sl. dróst saman um 62,6% í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútgefnum flugfarþegatölum Isavia. Ætla má að COVID-19 sé helsti orsakavaldur þess, auk þess sem brotthvarf Wow air af flugmarkaði fyrir ári síðan hefur orðið til þess að farþegum um flugvöllinn hefur fækkað.

Samdrátturinn milli febrúar og mars á þessu ári er töluverður, enda lamaði kórónuveiran flugsamgöngur að mestu um miðbik mars. Í febrúar voru brottfararfarþegar 167.496 talsins en í mars voru þeir 95.486. Komufarþegar voru 170.198 í febrúar en 87.468 í mars. Þá voru skiptifarþegar 55.592 í febrúar en 36.208 í mars. Alls voru farþegar því 393.286 í febrúar en aðeins 219.162 í mars.

Sjá einnig: Hlutafé Isavia aukið um 4 milljarða

Gera má ráð fyrir að samdrátturinn verði gífurlegur í apríl, en vegna COVID-19 eru aðeins örfá farþegaflug á dagskrá á degi hverjum á Keflavíkurflugvelli.

Fyrr í dag var greint frá því að fyrirhugað sé að hækka hlutafé Isavia, sem er að fullu í eigu ríkisins, um fjóra milljarða króna. Er það skilyrði fyrir hækkuninni að fjármunirnir verði nýttir í framkvæmdir og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og að þær muni hefjast strax á þessu ári.