Icelandic Provisions, samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar og íslenskra og bandarískra fjárfesta, hefur lokið fimm milljóna dollara skuldabréfaútboði með breytirétti að andvirði um 640 milljóna króna. Þrettán fjárfestar tóku þátt í útboðinu. Félagið framleiðir og selur skyr í Bandaríkjunum undir merkjum Icelandic Provisions.

Á rúmu ári hefur félagið safnað 19 milljónum dollara, jafnvirði um 2,5 milljarða króna, til að undirbyggja töluverð vaxtaráform en félagið hefur að undanförnu aukið framleiðsluna og fjölgað vörutegundum. Alls hefur félagið safnað yfir sex milljörðum króna af fjármagni frá árinu 2015 til að byggja upp reksturinn. Íslenskir stjórnarmenn í félaginu eru Hallbjörn Karlsson fjárfestir og Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.