Íbúðir í fjölbýlishúsinu við Arnarhlíð 1 eru komnar á sölu. Eru þetta fyrstu íbúðirnar í nýja hverfinu við Hlíðarenda sem fara á sölu. Meðalstærð íbúðanna er 71 fermetri og er meðalverðið 47,3 milljónir, sem þýðir að fermetraverðið er 666 þúsund krónur. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Samtals eru 40 íbúðir til sölu í Arnarhlíð, þar af eru 22 tveggja herbergja íbúðir, 16 þriggja herbergja og 2 fjögurra herbergja.
Tveggja herbergja íbúðirnar eru rétt tæplega 60 fermetrar og verðið frá 39,8 milljónum króna til 42,9 milljóna. Flestar þriggja herbergja íbúðirnar eru rétt ríflega 80 fermetrar og kosta á bilinu 48,9 til 53,9 milljónir króna. Ein stærri þriggja herbergja íbúð er til sölu. Hún er 113 fermetrar og er verðlögð á 72,9 milljónir. Í húsinu eru tvær fjögurra herbergja íbúðir. Þær eru 107 og 110 fermetrar og verðið frá 64,9 til 69,9 milljónir.

Frekari upplýsingar eru á vefnum hlíðarendabyggð.is.