Ríflega tveir af hverjum þremur landsmönnum svöruðu spurningu Gallup um hvort hópuppsögn á skrifstofu Eflingar væri réttlætanleg neitandi. Tæpur fimmtungur svaraði játandi en áttundi hver sat hjá. Úrtaksstærð var 1.669 og svarhlutfall 53%.

Nánar tiltekið voru 35,4% að öllu leyti ósammála , 18,3% mjög ósammála og 13,8% frekar ósammála. 8% voru frekar sammála, 5,7% mjög sammála og 5,6% að öllu leyti sammála. Könnunin var gerð dagana 23. til 27. apríl.

Uppsagnirnar voru að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, nauðsynlegur liður í skipulagsbreytingum á skrifstofum stéttarfélagsins, en trúnaðarmenn sögðu ekki hafa verið fullreynt að ná samkomulagi, og aðrir verkalýðsleiðtogar hafa fordæmt aðgerðirnar. Drífa Snædal forseti ASÍ lýsti þeim sem hreinsunum og sagði gefnar ástæður ekki halda vatni, vel væri hægt að ráðast í umræddar umbætur án slíkra uppsagna.

Í könnun Gallup voru svarendur yfir sextugu, lágtekjufólk, minna menntaðir og kjósendur Flokks fólksins í meira mæli sammála réttlætanleika uppsagnanna en aðrir.

Hóparnir fólk yfir sextugu, fólk undir 550 þúsund í fjölskyldutekjur og kjósendur Flokks fólksins voru allir um 30% sammála en frá 40 til 57% ósammála. Eini hópurinn sem var meira sammála, og meðal hvers fleiri voru sammála en ósammála, voru kjósendur „annarra“ flokka, en aðeins var hægt að velja sjö flokka, alla sem eiga þingsæti nema Miðflokkinn. Auk þeirra buðu þrír flokkar fram í síðustu þingkosningum en aðeins einn þeirra fékk teljandi atkvæðafjölda: Sósíalistaflokkurinn.