Icelandair Group hefur birt uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung . Í því kemur fram að tekjur námu 248,6 milljónum dollara samanborið við 267,6 á sama tíma í fyrra, nemur samdrátturinn 7%. Félagið tapaði 55,1 milljón dollara á ársfjórðungnum eða um 6,7 milljörðum króna. Á fyrsta ársfjórðungi 2018 nam tapið 34,5 milljónum dollara.

Afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBIDTA) var neikvæð um 14,7 milljónir dollara en var neikvæð um 18,2 milljónir dollara á sama tíma í fyrra. Eiginfjárhlutfall félagsins var 23% í lok mars samanborið við 32% í lok árs 2018. Handbært fé Icelandair Group nam 289 milljónum dollara (35,2 milljörðum króna) í lok fyrsta ársfjórðungs.

Í tilkynningu félagsins er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að farþegum félagsins til Íslands hafi fjölgað um 13% á fyrsta ársfjórðungi, farþegum frá Íslandi um 10% en farþegum milli Evrópu og N-Ameríku hafi hins vega fækkað um 2%.

„Rekstur félagsins var hins vegar krefjandi eins og við bjuggumst við og var rekstrarniðurstaðan í takt við áætlanir," er haft eftir Boga Nils. „Þróun fargjalda var neikvæð milli ára, sem skýrist meðal annars af mikilli samkeppni við flugrekendur sem boðið hafa upp á ósjálfbær fargjöld. Jafnframt var áframhaldandi þrýstingur á fargjöld milli Evrópu og N-Ameríku. Innleiðingar- og þjálfunarkostnaður vegna sex nýrra flugvéla sem félagið hafði gert ráð fyrir að taka í notkun hafði neikvæð áhrif auk þess sem einskiptiskostnaður féll til vegna kyrrsetningar B737 MAX flugvéla.

Flugrekstur er í eðli sínu sveiflukenndur og útsettur fyrir snörpum breytingum í markaðsumhverfinu, breytingum á fjármagnsmörkuðum sem og óvæntum atburðum. Icelandair Group hefur því lagt áherslu á að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á hverjum tíma með því að viðhalda sterkum efnahagsreikningi. Sterk fjárhagsstaða og sveigjanleiki Icelandair Group gerir félaginu kleift að takast á við krefjandi aðstæður en ekki síður til þess að nýta tækifæri vegna breytinga á samkeppnisumhverfinu. Þær breytingar sem áttu sér stað undir lok fyrsta ársfjórðungs skapa Icelandair Group tækifæri til arðbærs innri vaxtar. Til skamms tíma tefur kyrrsetning B737 MAX vélanna jákvæð áhrif þessara breytinga.

Langtímahorfur félagsins eru góðar og með samstilltu átaki um mótun og innleiðingu heildstæðrar stefnu, er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt. Það er ánægjulegt að reynslumikill alþjóðlegur fjárfestir deili þessari framtíðarsýn með okkur en kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital Management á 11,5% hlut í félaginu fyrir um 47 milljónir USD (rúma 5,6 milljarða) voru kynnt í apríl sl. Fjárfestingin mun efla félagið enn frekar og styrkja samkeppnishæfni þess til framtíðar.“