Tæplega 59% fyrirtækja telja sig uppfylla skilyrði laga um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni sem og ofbeldi á vinnustöðum. Svöruðu 15% hvorki né, og rúmlega 8% sögðust svo óssammála að því er fram kemur í niðurstöðum árlegrar könnunar Félags atvinnurekenda meðal félagsmanna sinna.

Rúmlega 18% fyrirtækja svöruðu ekki spurningunni, en spurt var hversu sammála eða ósammála menn væru fullyrðingunni „Fyrirtækið mitt uppfyllir öll skilyrði reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.“

Ef aðeins eru tekin þau fyrirtæki sem svöruðu spurningunni segjast tæplega 72% sammála því að viðbúnaður á þeirri vinnustað uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.

Skylt að bregðast við

Samkvæmt reglugerðinni er atvinnurekanda skylt að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi ekki viðgangast á vinnustað og ber honum að gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.

Þá ber atvinnurekenda að útbúa áhættumat og skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem koma skal fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi.

Einnig ber að tiltaka í áætluninni til hvaða aðgerða verði gripið, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreinda háttsemi.

Boð um aðstoð ítrekað

Spurningunni var bætt inn í árvissa könnun FA vegna umræðunnar sem farið hefur fram undir merkjum #metoo. „Það er ánægjulegt að sjá að meirihluti félagsmanna okkar telur sig uppfylla skilyrði reglugerðarinnar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA .

„Hins vegar er líka talsverður hópur sem telur sig ekki gera það. Við þau fyrirtæki ítrekum við enn boð okkar um aðstoð við að koma málum í lag, þannig að fyrirtækin uppfylli öll skilyrði og viðbúnaður gegn einelti, ofbeldi og áreitni sé í lagi.“

Könnunin var gerð dagana 19.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 153 aðildarfyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 87 fyrirtæki, en það er um 56% svörun.