Rekstrartekjur Norðursiglingar drógust saman um 72% og námu um 180 milljónum króna á nýliðnu ári samkvæmt rekstraráætlun, en kostnaður um 63%, og nam rekstrartap (EBITDA) því um 44 milljónum.

Félagið tapaði 13 milljónum króna árið 2019, samanborið við 102 milljónir árið áður, og tekjur námu 657 milljónum og féllu um 30%. Rekstrarkostnaður féll um 42% milli ára og nam 523 milljónum, og rekstrarhagnaður því 134 milljónir samanborið við 30 árið áður.

Eignir námu tæpum 1,5 milljörðum í árslok 2019, og eigið fé 293 milljónum. Eiginfjárhlutfall er því fimmtungur, og lækkar lítillega milli ára. Greidd laun námu 222 milljónum og drógust saman um 46% milli ára. Stöðugildi dróst að sama skapi saman um helming.

Í skýringu með ársreikningi segir að áhrif heimsfaraldursins séu „veruleg og neikvæð“, og stjórnendur hafi gripið til ýmissa aðgerða til að mæta þeim. Meðal annars að lækka kostnað og aðlaga starfsemina að nýjum aðstæðum með „verulegri hagræðingu“, og nýta úrræði stjórnvalda.

Þá var samið við lánardrottna um umbreytingu skammtímaskulda í langtíma, og frystingu afborgunarhluta þeirra langtímalána sem fyrir voru til 2023.