Bakkastakkur, félag um fjárfestingu lífeyrissjóða og Íslandsbanka í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík, var rekið með 7,3 milljarða króna tapi á síðasta ári. Hlutafé í PCC á Bakka að andvirði 2,4 milljarða króna, var fært niður að fullu en Bakkastakkur á 13,5% hlut í kísilverinu. Þá var bókfært virði skuldabréfaláns til kísilversins lækkað úr 9,7 milljörðum í 6,2 milljarða króna eftir eftirgjöf vaxta og frestun afborgana í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu kísilversins.

Sjá einnig: Lífeyrissjóðir afskrifa milljarða á Bakka

Tíðar bilanir og lágt kísilverð hafa leitt til tapreksturs frá því að kísilverið var gangsett vorið 2018. Í ársreikningnum kemur fram að mikil óvissa sé um framtíðarvirði fjárfestinganna. Kísilverið hefur ekki verið rekið á fullum afköstum í COVID-19 heimsfaraldrinum. Bakkastakkur, sem er í rekstri hjá Summu Rekstrarfélagi hf., eigi nægt lausafé út árið 2020 en endurskipuleggja þurfi fjárhag Bakkastakks í ljósi skuldabreytingarinnar á láni til PCC á Bakka.