7.300 manns voru atvinnulausir í desember síðastliðnum, samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar, eða 3,9% af vinnuaflinu. Það er 0,2 prósentustigum lægra en í nóvember. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,7%, sem er um 0,1 prósentustigum hærra en í nóvember. Árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 77,6%, eða um 0,2 prósentustigum hærra en í nóvember. Hagstofan greinir frá þessu á vef sínum.

„Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis hefur verið stöðug undanfarin misseri. Sjá má örlítinn stíganda upp á við sé horft til síðustu sex mánaða, eða úr 3,6% í júlí í 3,8% í desember. Leitni hlutfalls starfandi hefur einnig verið stöðug sé horft til síðustu sex mánaða,“ segir jafnframt í frétt Hagstofunnar.

Atvinnuleysi hefur frá desember 2018 aukist um 1,8%, en á sama tíma hefur atvinnuþátttaka aukist líttillega, eða um 0,2%. Aftur á móti hefur hlutfall starfandi lækkað um 1,2%.