Alþjóðlegi ráðgjafarrisinn McKinsey hefur samþykkt að greiða 573 milljónir Bandaríkjadala sáttargreiðslu, eða sem samsvarar um 75 milljörðum íslenskra króna, vegna meintrar hlutdeildar í að auka á ópíóðafaraldurinn í Bandaríkjunum.

Ráðgjöf fyrirtækisins til lyfjafyrirtækisins Purdue Pharma á árunum 2004 til 2019, sem miðaði að því að auka sölu á hinu ávanabindandi verkjalyfi Oxycontin, hefur verið til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum.

Samkomulagið sem fyrirtækið hefur gert við yfirvöld nær til 47 ríkja og kemur í veg fyrir að hægt verði að lögsækja McKinsey vegna málsins í þeim ríkjum síðar meir. McKinsey segist einnig hafa náð sátt við tvö ríki til viðbótar og heildarfjárhæð sáttargreiðslanna sé því nær 600 milljörðum dollara, að því er fram kemur í frétt BBC .

Vildu auka sölu til ávísunarglaðra lækna

Því hefur verið haldið fram að ráðgjöf McKinsey hafi átt þátt í því að eyðileggja líf fólks með ráðgjöf sinni, sem hafi verið sem olía á eld ópíóðavandans í Bandaríkjunum, en ráðgjafarrisinn hefur hafnað öllum ásökunum um misgjörðir.

Saksóknarar segja fyrirtækið hafa unnið að aðferðum til að stórauka sölu á Oxycontin og ráðlagt Purdue að fjölga símtölum til lækna sem þekktir væru fyrir að ávísa lyfinu í miklu magni auk þess að grafa undan áformum yfirvalda um að takmarkanir skammtastærða.