Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,60%, og fór í 1.786,46 stig, í 1,6 milljarða krónu heildarveltu á hlutabréfamarkaði. Langmestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir tæplega 1,2 milljarða, og hækkaði gengi þeirra um 1,07% í viðskiptunum, og nema þau nú 472,50 krónum. Það þýðir að 75% allra viðskipta í kauphöllinni voru með bréf Marel.

Mest hækkaði þó gengi bréfa Icelandair, eða um 1,70%, upp í 8,37 krónur í 144 milljóna króna viðskiptum. Næst mest var hækkun bréfa TM, eða 1,25% og er virði bréfa félagsins er nú 28,30 krónur eftir 99 milljóna króna viðskipti.

Gengi bréfa fasteignafélagsins Reginn lækkaði mest, eða um 0,93% í þó ekki nema 32 milljóna króna viðskiptum, fór verðgildi bréfanna niður í 21,20 krónur. Gengi bréfa Arion banka lækkaði svo um 0,83%, niður í 71,90 krónur, í 29 milljóna króna viðskiptum.

Heildarveltan á skuldabréfamarkaði nam 5,9 milljörðum.

Gengi krónunnar styrktist gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í dag, utan evrunnar, sem stóð í stað í 135,25 króna kaupgengi og breska sterlingspundsins sem styrktist um 0,01%, en hvert pund fæst á 155,64 krónur.

Krónan styrktist mest gagnvart japanska jeninu, sem veiktist um 0,36%, og fæst nú hvert jen á 1,075 krónur, en næst mest var veiking Bandaríkjadals gagnvart krónunni, eða 0,28% og fæst dalurinn nú á 119,06 krónur.