Af 31 fyrirtæki sem sóttu um lán frá tímabundnu stuðningsúrræði stjórnvalda við nýsköpunarfyrirtæki voru 26 umsóknir samþykkt, en umsóknarfrestur um veitingu lána rann út um nýliðna helgi . Skilyrði þátttöku Stuðnings-Kríu er að umsækjandi hafi tryggt sér sambærilega fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er grunnhugmyndin að Kríu að fyrirmynd umgjarðar um stuðning við nýsköpun í Ísrael þar sem Yozma sjóðurinn hefur starfað frá 1993 á svipaðan hátt. Fiskifréttir sögðu einnig frá fjárfestingastefnu sjóðsins , m.a. hvernig fyrirkomulagið megi rekja til hvalveiða 19. aldar.

Segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að mikill áhugi hafi verið fyrir mótframlagslánum Stuðnings-Kríu,og hafi því þurft að lækka lánsfjárhæðirnar sem hvert og eitt fyrirtæki fengi miðað við umsóknirnar. Alls verður 755 milljónum króna varið í fjárfestingar frá Stuðnings-Kríu í formi mótframlagslána.

Samtals 1,4 milljarðar í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækjanna

Með framlagi Stuðnings-Kríu til fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja samhliða fjármögnun einkafjárfesta hefur tæplega 1,4 milljarður króna í heild verið varið til fjármögnunar þessara tilteknu nýsköpunarfyrirtækja á síðustu mánuðum.

Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er lögð sérstök áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til lífvænlegra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í fjármögnunarumhverfi nýsköpunar á heimsvísu í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa tímabundna aðstoð til að komast yfir hjallann.

Úrræðið er á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi í júní í sumar með frumvarpi nýsköpunarráðherra. Með Stuðnings-Kríu er hið opinbera að útvega fjármögnun til fyrirtækja sem einkafjárfestar hafa sjálfir trú á og þau kjör sem fyrirtækjunum standa til boða á einkafjármagni eru jöfnuð af Stuðnings-Kríu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með framkvæmd mótframlagslána en ákvörðun um veitingu lánanna voru teknar af sérstakri nefnd sem skipuð var af ráðherra nýsköpunarmála.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , nýsköpunarráðherra segir:

„Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafa mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingu atvinnulífsins. Í viðspyrnu er sérstaklega mikilvægt að byggja upp á þessum vettvangi. Stuðnings-Kría nýtist í því ótrygga ástandi sem nú ríkir og fjöldi umsókna sýnir þörfina á þessu framtaki og mikilvægi þess að styðja enn frekar við nýsköpun til framtíðar.“