Tap Heimsferða nam 156 milljónum króna á árinu 2020 en félagið tapaði öðru eins árið 2019 eða 159 milljónum. Velta félagsins nam 647 milljónum króna og dróst saman um 84% frá fyrra ári, þegar veltan nam tæpum 4 milljörðum. Rekstrartap félagsins nam 99 milljónum króna, samanborið við 143 milljónir ári fyrr.

Laun og launatengd gjöld námu 135 milljónum króna og drógust saman um ríflega helming frá fyrra ári, en í árslok voru stöðugildi innan félagsins 8, samanborið við 26 í upphafi árs.

Eignir Heimsferða námu um milljarði króna við árslok og jukust um 7,6% frá fyrra ári. Eigið fé félagsins jókst um 19% milli ára og nam 193 milljónum en skuldir jukust um 5% og námu 812 milljónum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 19,2% sem er um 2% hærra en ári fyrr.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að félagið hafi verið nær tekjulaust frá marsmánuði 2020 og að allar endurgreiðslukröfur viðskiptavina vegna faraldursins hafi verið greiddar.

Heimsferðir eru í eigu Arion banka í gegnum dótturfyrirtæki bankans Sólbjarg ehf. Arion banki hefur undirritað samning við Ferðaskrifstofu Íslands ehf. um kaup á rekstri Heimsferða, en bankinn verður minnihluta hluthafi í Ferðaskrifstofu Íslands. Jón Karl Ólafsson er stjórnarformaður Heimsferða.