Fjármálastjórar landsins telja flestir að stýrivextir Seðlabankans séu of háir. Er þetta meðal niðurstaðna úr sjöttu könnun Ráðgjafasviðs Deloitte meðal fjármálastjóra stærstu fyrirtækja á Íslandi sem framkvæmd var í nóvember. Könnunin var sett á laggirnar að fyrirmynd Deloitte á alþjóðavísu og er tilgangur hennar að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og efnahagsumhverfisins. Sendur var spurningalisti til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

Aðspurðir telur yfirgnæfandi meirihluti fjármálastjóra stýrivexti Seðlabanka Íslands of háa, eða 91%. Hlutfallið var þó enn hærra í sambærilegri könnun sem framkvæmd var í maí en þá svöruðu 96% þátttakenda því að stýrivextirnir væru of háir.

Meirihluti fjármálastjóra segir almennt að fjárhagsleg áhætta síns fyrirtækis hafi staðið í stað á síðastliðnum 12 mánuðum en 28% segja áhættuna hafa aukist nokkuð. Þá telur einn af hverjum þremur svarendum að nú sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi og stefna jafnmargir á að auka fjárfestingar á næsta árinu. Líkt og síðastliðið vor heldur gengisþróun krónunnar áfram að vera stærsti ytri áhættuþáttur fyrirtækja, en meirihluti fjármálastjóra, eða 73%, telur að krónan muni halda áfram að styrkjast nokkuð á næstu sex mánuðum.

Deloitte könnun 3
Deloitte könnun 3
© vb.is (vb.is)