Við ætlum ekki að taka þátt í að skima úti á flugvelli,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Kári gagnrýnir hvernig staðið hafi verið að undirbúningi við skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli við kórónuveirunni.

Veirufræðideild Landspítalans mun ekki geta greint um 500 sýni á dag úr ferðamönnum sem koma inn í landið þegar opna á Ísland á ný þann 15. júní samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar á vegum heilbrigðisráðherra sem birt var á þriðjudag. Kaupa þurfi frekari tækjabúnað og auka mönnun til að auka getu til skimunar til muna. Til samanburðar voru brottfarir ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli um 7.400 á dag í júní, júlí og ágúst á síðasta ári. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nefndi í Kastljósi í gær að hugsanlega þyrfti að komast að samkomulagi við Íslenska erfðagreiningu um greiningu sýna úr ferðamönnum til að koma verkefninu af stað.

Heyrði fyrst af málinu í Kastljósi

„Í fyrsta sinn sem ég heyri af þessu er í Kastljósi í gær. Þetta eru ekki beinlínis heilbrigð samskipti,“ segir Kári sem útilokar slíkt samstarf við heilbrigðisyfirvöld.

„Við ætlum ekki á neinn máta að taka þátt í aðferð sem okkur líst ekkert á. En ég vona heitt og innilega að þetta gangi vel hjá þeim,“ segir Kári.

Ekki hafi verið haft neitt samráð við sig eða Íslenska erfðagreiningu í ferlinu. Þó hafi hugmynd um að skima alla sem koma inn í landið við veirunni verið eignuð Kára af starfshópi ríkisstjórnarinnar um afnám ferðatakmarkana.

„Ég þvæ hendur mínar algjörlega af því sem hæstvirtur heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fara í að koma þessu á legg. Þegar hann setur saman framkvæmdanefnd til að meta hvernig og hvort hægt sé að gera þetta leitar hann auðvitað ekki til eina aðilans í landinu sem hefur reynslu, getu og kunnáttu til að gera það. Það var ekki nóg með að það var enginn fulltrúi frá okkur í þessari nefnd — þessi nefnd hringdi ekki einu sinni í okkur, sem er alveg með ólíkindum,“ segir Kári.

Kári segir skorta á auðmýkt hjá Svandísi. „Í þessum Kastljósþætti nefndi Svandís það fjórum sinnum að við þyrftum að vera auðmjúk. Ég er voðalega hræddur um að stór hluti af vandanum núna eigi rætur sínar í andstöðu auðmýktarinnar hjá Svandísi — sem er alveg ævintýralegur hroki. En ég legg áherslu á að Svandís er búin að vera alveg firnagóður heilbrigðismálaráðherra og vinna mjög gott starf og vera ötul baráttukona fyrir hagsmunum heilbrigðiskerfisins. En hún hefur tilhneigingu til þess að detta ofan í svona vitleysu. Að verða allt í einu sjö ára og þurfa ekki á neinni aðstoð að halda.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Mikla sölu á sumarvörum sem sumar hverjar eru orðnar uppseldar en aðrar á leiðinni í skipsförmum til landsins
  • Veitur ætla að ráðast í frekari fjárfestingar en áður áætlað og stíga inn sem sveiflujafnari að til að bregðast við Covid-19
  • Úttekt á rekstri Alvogen sem sér fram á öran vöxt á næstu árum
  • Ítarlegt viðtal við Finn Árnason, fráfarandi forstjóra Haga.
  • Fjallað er um launakjör hins opinbera.
  • Icelandic Startups og Nova hleypa nýjum viðskiptahraðli af stokkunum
  • Nýr forstjóri Coripharma, Jónína Guðmundsdóttir, segir frá bakgrunni félagsins, framtíðarsýn og lífinu utan vinnu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um heimsfaraldurinn
  • Óðinn skrifar um jafnrétti kynjanna