A4 hefur gert samstarfssamning við ríkisfyrirtækið Íslandspóst til þriggja ára þess efnis að Pósturinn sjái um alla vörudreifingu á sendingum A4 um land allt, en dreifikerfið nær til allra landsmanna.

A4 rekur sjö verslanir undir eigin nafni um land allt, þar af fjórar á höfuðborgarsvæðinu, með skrifstofuvörur og skrifstofuhúsgögn ásamt skóla-, gjafa-, föndur- og hannyrðavara. Þá rekur fyrirtækið einnig verslanirnar Panduro og Legobúðina í Smáralind.

„Við hlökkum til samstarfsins en það er okkur afar mikilvægt að vörur skili sér með áreiðanlegum hætti til viðskiptavina og að þjónustuupplifun þeirra sé góð. Það er helsta ástæða þess að við völdum Póstinn, við þekkjum þjónustuna mjög vel og treystum á að Pósturinn muni sinna þessu verkefni af mikilli kostgæfni.“ segir Ásta Björk Matthíasdóttir, fjármálastjóri A4.

Viðar Blöndal, viðskiptastjóri hjá Póstinum segir það mikilvægt fyrir Íslandspóst að fara í samstarf við jafn öflugan aðila eins og A4. „Pósturinn hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og vörudreifing orðin okkar helsta þjónusta. Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf og traustið sem A4 sýnir okkur.“