Ekki fæst gefið upp hversu mikið tap HB Granda verði af landvinnslu félagsins á næstu misserum. „Við getum ekki fjallað um það sérstaklega. Fyrirtækið er á markaði og við getum ekki verið að tína einstaka tölur úr rekstrinum,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í samtali við Fréttablaðið , spurður út í afkomu landvinnslu á Akranesi.

Vilhjálmur tekur jafnframt fram að hann sé ekki nokkrum efa um það að ef gengi íslensku krónunnar haldist svo sterkt sem raun ber virki, eða styrkist enn frekar, þá muni draga verulegu úr vinnslu hér á landi.

Forstjórinn staðfestir þá mynd sem hefur verið dregin upp fyrir Skagamenn, en líklega verður öllum starfsmönnum í landvinnslu á Akranesi sagt upp störfum, að öllu óbreyttu. „Ef ég hefði lausn til að breyta þessu þá hefði ég lagt hana á borðið,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir enn fremur á að hagnaður fyrirtækisins hafi verið nýttur til mikilla fjárfestinga. Fyrirtækið hefur til dæmis byggt upp flota félagsins til að tryggja reksturinn til framtíðar, og bætir við að stór hluti hagnaðar HB Granda skýrist af góðri afkomu af uppsjávarveiðum og vinnslu félagsins.