200 manna samkomutakmarkanir, eins metra regla og skertur opnunartími skemmtistaða og veitingastaða þar sem áfengissölu skal vera hætt klukkan 23 og stöðunum lokað á miðnætti. Þetta er meðal nýrra sóttvarnareglna sem taka gildi á miðnætti á morgun að því er kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV.  Aðgerðirnar eiga að gilda í þrjár vikur.

Katrín sagði aðgerðirnar að mestu í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnason sóttvarnarlæknis sem hann sendi í kjölfar fjölgunar smita kórónuveirunnar hér á landi síðustu daga.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að útséð með að stórar útihátíðir yrðu haldnar á meðan þessar tillögur væru í gildi.

Ríkisstjórnarfundur stóð frá klukkan fjögur í dag og til að verða sjö þar sem tillögur Þórólfs voru ræddar. Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar vænti þess upphaflega að fundurinn stæði í um tvær klukkustundir og yrði því lokið um sex leytið.

Þetta eru í annað sinn í vikunni sem ríkisstjórnin tekur ákvörðun um sóttvarnarreglur í kjölfar tillagna Þórólfs tengdar faraldrinum. Á mánudaginn var greint frá því að auknar kröfur yrðu gerðar til bólusettra ferðamanna og þeir krafðir um neikvætt kórónuveirupróf á landamærunum .

Ekki virtist einuhugur með þá ákvörðun innan ríkisstjórnarinnar þó enginn ráðherra legðist formlega gegn því á ríkisstjórnarfundi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sögðust bæði spyrja sig í viðtölum við fjölmiðla hvort þörf væri á aðgerðunum.