Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það af hálfu Hvals hf. hvort dómum í málum þriggja hluthafa félagsins gegn því, þar sem fallist var á skyldu þess til innlausnar á hlutum þeirra, verði áfrýjað. Ekki hafa borist beiðnir frá öðrum hluthöfum um innlausn á sama gengi og fallist var á í dómunum. Þetta segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi félagsins við Viðskiptablaðið.

Um er að ræða þrjá dóma Héraðsdóms Vesturlands í síðustu viku en stefnendur voru félögin Erna ehf., eigandi þess er Benedikt Einarsson; P126 ehf., eigandi Einar Sveinsson, faðir Benedikts; og Eldhrímnir ehf. Síðastnefnda félagið er í eigu Ingimundar Sveinssonar. Samanlagt eiga félögin ríflega fimm prósent í Hval. Innlausnarkrafan var sett fram á þeim grunni að fyrrnefndur Kristján hefði aflað sér ótilhlýðilegra hagsmuna með kaupum á bréfum í félaginu á verulegu undirverði. Umrædd kaup fóru fram á genginu 85 en samkvæmt mati dr. Hersis Sigurgeirssonar, sem var dómkvaddur matsmaður í málinu, var virði hvers hlutar um 163. Áður hafði Erna gert kaupsamninga um hluti nokkurra hluthafa á sama gengi en ekki náð að fjármagna kaupin.

„Það liggur í hlutarins eðli, með félag eins og Hval, að maður hefur ekki áhuga á hverjum sem er þarna inn þannig að félagið hefur forkaupsrétt á öllum hlutum sem boðnir eru til sölu. Þegar félagið var stofnað þá voru einkahlutafélög ekki þekkt – menn áttu bara hlutinn sjálfir – en síðan þá hafa menn verið að koma þarna inn með því að kaupa félögin en ekki hlutina,“ segir Kristján við blaðið.

Seinna meir náði Erna samkomulagi um kaup á fleiri bréfum, þá á genginu 95, en þá ákvað stjórnin að nýta forkaupsrétt félagsins. Aftur á móti hafði það ekki verið gert þegar Kristján keypti. Dómur í málinu var fjölskipaður, mannaður tveimur embættisdómurum og sérfróðum meðdómara, og klofnaði í afstöðu sinni. Meirihluti dómsins taldi að stjórn Hvals og Kristján hefði með þessu hyglt stærsta hluthafanum og brotið gegn trúnaðarskyldum sínum svo að réttlætanlegt væri að innleysa hluti félaganna þriggja.

Benedikt setti verðið

„Aðalmálið er það að hann [Benedikt Einarsson] kemur þarna, setur verðið 85 og tilkynnir það stjórninni svo hún geti tekið ákvörðun um hvort nýta skuli forkaupsréttinn. Seinna meir sendir hann annað skeyti um að hann nái ekki að fjármagna þennan pakka upp á rúmar 1.300 milljónir. Þrátt fyrir að þau kaup hafi fallið niður þá hafði stjórnin tvo mánuði til að nýta rétt sinn en ákvað að gera það ekki,“ segir Kristján.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .