Drög að frumvarpi um breytingar á Seðlabankanum gera ráð fyrir að aðstoðarseðlabankastjórum verði fjölgað úr einum í þrjá, og og skiptist verksvið þeirra í peningamál, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlit. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins í morgun.

Sérstök verkefnisstjórn, sem heyrir undir ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, hefur unnið að umbótum á umgjörð Seðlabankans síðustu mánuði.

Fjölgun aðstoðarseðlabankastjóra úr einum í tvo var ein af tillögum starfshóps um endurmat á peningastefnu, sem Ásgeir Jónsson veitti formennsku, og skilaði skýrslu síðasta sumar.

Var þar lagt til að verksvið aðstoðarseðlabankastjóranna tveggja skiptust í peningamál annarsvegar og fjármálastöðugleika hinsvegar, eins og frumvarpsdrögin gera ráð fyrir. Auk þess var lagt til að framkvæmd þjóðhagsvarúðar yrði færð frá Fjármálaeftirlitinu til Seðlabankans, en eftirlitið yrði áfram starfrækt sem eftirlitsaðili með fjármálamörkuðum.

Ákvörðun var hinsvegar tekin í október um að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið í heild sinni, sem væntanlega skýrir að einum aðstoðarseðlabankastjóra til viðbótar er bætt við tillögur starfshópsins, sem fer með mál eftirlitsins en heyrir undir seðlabankastjóra.

Staða seðlabankastjóra var nýlega auglýst til umsóknar, en skipunartími Más Guðmundssonar rennur út þann 20. ágúst næstkomandi, og ekki er heimilt að skipa hann í þriðja sinn. Umsóknarfrestur rennur út 25. mars.