Íslenska ginið Ólafsson, sem nefnt er í höfuðið á skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni, hefur notið mikilla vinsælda meðal landsmanna á því rúma ári sem það hefur verið fáanlegt í Vínbúðinni. Til marks um það tók það ginið aðeins tíu mánuði að verða þriðja mest selda ginið í Vínbúðinni en ginið rataði fyrst í hillur Vínbúðarinnar í byrjun mars á síðasta ári, eða um það leyti sem COVID-19 faraldurinn var að taka sér bólfestu hér á landi. Arnar Jón Agnarsson, framkvæmdastjóri Eyland Spirits, sem framleiðir Ólafsson ginið, kveðst ánægður með viðtökurnar - ekki síst í ljósi þess að ginið kom inn á markað á miklum umrótartímum.

„Vegna faraldursins þurftum við að fara aðrar leiðir en við upphaflega ætluðum okkur. Fríhöfnin hefur verið stór póstur í áfengissölu á Íslandi en um leið og varan okkar var tilbúin til að koma inn á markað lokaðist Fríhöfnin nánast. Í eðlilegu árferði hefði Fríhöfnin orðið okkar langstærsti tekjupóstur og við þurftum því að endurhugsa áætlun okkar. Þá lá auðvitað í augum uppi að koma vörunni í hillur Vínbúðanna. Varan fékk góðar móttökur frá viðskiptavinum Vínbúðarinnar þegar hún kom á markað og við náðum að koma Ólafsson gininu í allar Vínbúðir á landinu á u.þ.b. hálfu ári vegna góðrar sölu. Mér skilst að það hafi aldrei gerst áður með íslenskt áfengi."

Arnar segir að allt frá stofnun hafi helsta markmið Eyland Spirits verið að fá Íslendinga til að sýna íslensku áfengi meiri áhuga. „Það er ekki langt síðan það voru aðallega útlendingar sem voru að drekka íslenskt gin," segir hann og bendir á að það sé flókið mál fyrir nýjan áfengisframleiðanda að koma sér á framfæri, þar sem það sé jú bannað að auglýsa áfengi á Íslandi. „Við höfum við því þurft að beita nýstárlegum aðferðum við að koma vörunni á framfæri. Við höfum náð góðum árangri í Vínbúðinni og til að mynda var Ólafsson þriðja mest selda ginið í Vínbúðinni í desember og salan hefur haldið sér á þeim slóðum fyrstu mánuði þessa árs. Við erum mjög stolt af því hversu vel landsmenn hafa tekið gininu og þetta sýnir að Íslendingar vilja drekka íslenskt áfengi."

Sókn á erlenda markaði

Að sögn Arnars er fyrirtækið hægt og rólega að færa út kvíarnar með sókn á erlenda markaði. „Þegar fyrirtækið var stofnað var markmiðið að framleiða íslenskar vörur sem gætu keppt við áfengisrisa á alþjóðlegum markaði." Til þess að það gæti orðið að veruleika þyrfti varan að vera samkeppnishæf í bragði, útliti og verði. „Öll undirbúningsvinna okkar fólst því í að varan myndi tikka í öll þessi box. Vegna COVID-19 höfum við þó farið okkur hægt í sókn á erlenda markaði þar sem það þarf að fylgja sókn á erlenda markaði mjög vel eftir með því að ferðast út, kynna vöruna á börum og veitingastöðum, halda útgáfupartý o.s.frv."

Arnar segir að fyrirtækið hafi nýlega tekið fyrstu skrefin inn á erlenda markaði. „Við höfum þegar samið við dreifingaraðila úti í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael. Það eru því spennandi tímar framundan og þá sérstaklega þegar staðan á COVID-19 faraldrinum verður orðin betri."

Nýjar vörur væntanlegar

Ólafsson ginið er enn sem komið er fyrsta og eina áfengistegundin sem Eyland Spirits hefur sett á markað en að sögn Arnars mun fyrirtækið í byrjun sumars setja út á markað áfenga kokteila í dós. Þá muni fyrirtækið einnig hefja sölu á vodka með haustinu. „Kokteilarnir koma á markað í maí eða júní. Þessi vöruflokkur er í gríðarlegum vexti og þó að ég segi sjálfur frá eru kokteilarnir okkar sem eru væntanlegir á markað virkilega bragðgóðir. Með haustinu munum við svo setja á markað íslenskan vodka. Stefnan er að vera með fimm til sex tegundir af áfengum drykkjum í vöruúrvalinu okkar. Nýju vörurnar munu ekki heita Ólafsson, heldur verður um ný vörumerki að ræða. Það mun þó ekki fara milli mála að vörurnar séu frá sama framleiðanda og Ólafsson ginið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .