Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum ætla nú að skoða og kvitta upp á flughæfi hverrar einustu af Boeing 737 MAX vélum fyrirtækisins áður en þeim verður hleypt á loft á ný. Þetta kemur fram í bréfi til Boeing frá FAA, flugmálaeftirlitinu í Bandaríkjunum, sem þýðir að það verður tímafrekara og flóknara ferli að koma vélunum í notkun á ný en áður talið.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í fréttum voru allar vélar af þessari gerð kyrrsettar eftir tvö alvarleg flugslys á skömmum tíma þar sem allir um borð létust, það síðara í mars á þessu ári. Hafa flugmálayfirvöld í landinu tekið af fyrirtækinu réttinn til að framkvæma slíka rannsókn og öryggisprófanir sjálft, líkt og það hefur gert árum saman.

Ekki er ljóst hve mikil töf verður af ákvörðuninni, það veltur að hluta til á hve vel gengur hjá Boeing sjálfu að undirbúa kyrrsettar vélar undir skoðun og að hluta til á starfsfólki FAA. Um 600 vélar af þessari gerð eru kyrrsettar víða um heim, en félagið hélt áfram framleiðslu vélanna þrátt fyrir kyrrsetninguna sem bíða við verksmiðju félagsins í Seattle.

Hugðust byrja að afhenda vélar í desember á ný

Ákvörðunin setur enn meiri vafa á það að hægt verði að koma vélunum í notkun fyrir árslok, en félagið hafði vonast til þess að geta byrjað að afhenda vélarnar á ný í desembermánuði. Áætlað er að það taki nokkrar vikur til viðbótar fyrir FAA og önnur flugmálayfirvöld að klára breyttar reglur um þjálfun flugmanna á vélarnar.

Ákvörðunin nú kemur á sama tíma og Bandaríkin, Kanada og fleiri lönd virðast nálgast það að samræma reglur um þjálfun MAX flugmanna, og stefnir í að það muni duga að þeir geti fengið að fljúga þeim eftir viðbótarþjálfun sem einungis krefjist notkunar tölvu, í stað þess að krefjast notkunar flugherma líkt og þess sem er í eigu Flugleiða.

Yfirmaður sendir starfsmönnum stuðning

Í bréfinu kemur fram að Boeing muni ekki fá heimild til að framkvæma prófanirnar sjálft fyrr en vélarnar uppfylli allar kröfur flugmálayfirvalda í hönnun og framleiðslu. Fjölmörg flugfélög, þar á meðal Icelandair, Southwest Airlines, American Airlines og United Airlins hafa tekið vélarnar út úr áætlunum sínum fram í marsmánuð.

Ali Bahrami yfirmaður öryggismála hjá FAA ritaði yfirmanni flugmálaeftirlitsins, Steve Dickinson, bréf þar sem hann sagðist vilja senda „sterk skilaboð til 737 MAX teymisins til að tryggja þeim að öryggi, frekar heldur en tímatafla Boeing, sé í forgangi hjá félaginu,“ sagði Bahrami að því er WSJ greinir frá.

Dickinson sendi skilaboð til baka til starfsmanna sinna að FAA væri með fulla stjórn á vottunarferlinu og sagði þeim að setja öryggismálin í forgangi. „Ég veit að það er mikil pressa á að koma vélunum aftur í notkun hratt,“ sagði Dickinson. „Ég vil að þið vitið að ég vil að þið takið ykkur þann tíma sem þið þurfið og einbeitið ykkur algerlega á öryggismálin. Ég styð við bakið á ykkur.“