Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 segir ekki hægt að reka bensínstöð á Costco-verði, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er Costco að selja bensínlítrann á 169,90 krónur, meðan hin olíufélögin selja hann á tæpar 200 krónur. Segir Eggert ótímabært að spá fyrir um áhrifin af komu Costco á markaðinn, þó hann telji áhrifin óveruleg að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Nefnir hann máli sínu til stuðnings að af þeim um 300 milljónum lítra af bensíni sem seldar séu til bifreiða á hverju ári, þá selji stærsta einstaka bensínstöðin um það bil tíu milljónir lítra á ári.

Hressilegri lækkun en átti von á

„Ef Costco verður stærst, þá selur hún tíu milljónir lítra af 300. Það breytir ekki miklu varðandi markaðshlutdeild,“ segir Eggert, en meðaltalið er um milljón lítrar á ári, á hverja bensínstöð, en Eggert leggur áherslu á mikinn mun á þjónustu.

„Maður vissi ekkert hvert verðið yrði, en þetta er talsvert hressilegra niður en ég átti von á [...] Auðvitað er ljóst að ef það er framtíðin að selja eldsneyti með lítilli eða engri, eða nánast engri, álagningu, þá verð ég ekki með 6-800 manns í vinnu við að selja eldsneyti og reka stöðvarnar.“

Eggert segir í samhengi við kaup Haga á Olís og Skeljungs á móðurfélagi 10-11, að hugsanlega muni eldsneytismarkaðurinn hér á landi færast nær því sem er í Bretlandi, þar sem bensnínstöðvarnar eru oft útibú verslunarkeðja. Hins vegar hafi N1 einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni á undanförnum árum.

„Okkar vöxtur hefur verið í ferðamanninum á landsbyggðinni. Það þótti hallærislegt fyrir hrun, en reyndist vera hárrétt ákvörðun hjá forverum mínum.“