Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tók sig til í dag og kynnti 0,5% stýrivaxtalækkun. Markaðir hafa rokið upp í kjölfar fréttanna, en óhætt er að segja að ákvörðunin hafi komið mörgum á óvart.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, flutti í kjölfar kynningarfundar peningastefnunefndar nokkur orð um vaxtaávkörðunina. Orð seðlabankastjórans gáfu til kynna hvers vegna ráðist var í þessar lækkanir, en stýrivextir eru nú 5,25%.

Verðbólga lækkar og krónan hækkar

Í fyrsta lagi hefur verðbólga haldið áfram að minnka og hefur hún haldist undir spám bankans, sem byggðu eins og aðrar verðbólguspár á tæknilegum forsendum um óbreytt gengi krónunnar.

Gengi krónunnar hefur aftur á móti hækkað verulega á undanförnum misserum. Þar sem að verðbólga hefur lækkað og krónan hefur styrkst, telur bankinn að hægt verði að ná verðbólgumarkmiðum, með lægra vaxtarstigi en áður var talið.

Telur peningastefnuna sanna sig

Már telur peningastefnu Seðlabankans hafa sannað sig og trúverðugleika hennar hafa aukist. Það er að hans sögn mikið fagnaðarefni. Hærri vextir hafa til að mynda stuðlað að minni innlendri eftirspurn en ella og örvað sparnað. Viðskiptaafgangur og gjaldeyrisinnstreymi verður af þeim sökum meira en ella, sem ýtir undir styrkingu krónunnar.

Háir vextir og trúverðugar yfirlýsingar peningastefnunefndar, hafa að mati Más leitt til þess að fyrirtæki eru ragari við að velta kostnaðarauka vegna launahækkana út í verðlag.

Vaxtamunur verður áfram verulegur

Núverandi ákvörðun byggist samkvæmt Seðlabankanum á þeim árangri sem náðst hefur við að ná verðbólguvæntingum í markmið. Minnkun verðbólgu og hjöðnun væntinga hefur leitt til þess að raunstýrivextir hafa hækkað umtalsvert og umfram það sem óhætt var að reikna með á fyrri hluta ársins.

Þrátt fyrir vaxtalækkunina mun vaxtamunur gagnvart útlöndum áfram verða verulegur og líklegast nægilegur til að styðja við losun hafta.

Peningastefnunefnd bankans mun svo að sögn Más meta og ræða gjaldeyrisinngripsmál á næsta fundi. Þá verður til að mynda litið til þeirra skrefa sem taka á í átt að losun hafta.