Icelandair hefur uppfært flugáætlun sína og birtir nú 26 áfangastaða í stað 11 eins og fram kom í fréttum á mánudag en þá stefndi félagið á 41 ferð í viku strax eftir opnunina eftir helgina. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um verður landið opnað á ný eftir heimsfaraldurinn á mánudaginn 15. júní næstkomandi, þó þannig að skimun eða vottorð um slíkt verða skilyrt.

Jafnframt sagði Viðskiptablaðið frá því að Icelandair hefur skyldað notkun andlitsgríma um borð í vélum sínum fyrir bæði farþega yfir 12 ára og starfsmenn. Flestar nýju ferðirnar sem komnar eru á nýuppfærða flugáætlun félagsins bætast við 29. júní næstkomandi, en sumar 6. og aðrar 13. júlí.

Síðustu vikur hefur félagið einungis flogið til Stokkhólms, London og Boston samkvæmt sérstökum samningi við stjórnvöld um að viðhalda flugsamgöngum. Amsterdam, Berlín, Frankfurt, Kaupmannahöfn, München, París, Osló og Zürich bættust svo við áætlunina fyrr í vikunni en nú hefur heldur bæst við.

Þeir áfangastaðir sem bætast við frá 29. júní eru:

  • Brussel
  • Chicago
  • Dublin
  • Helsinki
  • Seattle
  • Toronto
  • Washington

Þeir áfangastaðir sem bætast við 6. júlí eru:

  • New York - JKF flugvöllur
  • Minneapolis
  • Glasgow
  • Dusseldorf
  • Billund

Þeir áfangastaðir sem bætast við 13. júlí:

  • Denver
  • Hamburg
  • Madrid

Í flestum tilfellum gerir áætlunin ráð fyrir fjölgun ferða þegar líður á sumarið, á hvern áfangastað á sömu dagsetningum og áfangastöðunum mun fjölga, í sumum tilfellum upp í 5 til 6 sinnum í viku, meðan fyrstu dagana er gert ráð fyrir 3 ferðum á viku í mörgum tilvikum.