Vöruhús Coscto sem opnar í Kauptúni í Garðabæ á þriðjudag verður bæði amerískari í útliti og vöruúrvarli og stærri en venjan er hjá verslunum bandarísku keðjunnar í Evrópu. Jafnframt verður selt þar áfengi, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins sem ræddi við Brett Vigelskas, framkvæmdastjóra verslunarinnar hér á landi.

„Okkur skils að Íslendingar séu hrifnir af því sem amerískt er og við viljum gjarnan koma til móts við það,“ segir Brett. Þeir sem hafa fyrirtækjaaðild að Costco geta verslað í heildverslun vöruhússins með áfengi ef þeir hafa leyfi til að selja áfengi í smásölu, en einstaklingar geta ekki verslað áfengi í vöruhúsinu. Nýlega var gengið frá leyfi til slíkrar sölu að sögn Vigelskas.

Vöruhúsið verður jafnframt eina Costco verslunin í Evrópu þar sem sushi verður útbúið og er nú staddur sushi-gerðarmaður frá verslun Costco í Japan til að undirbúa opnunina og þjálfa starfsfólkið. Verslunin verður einnig sú eina í Evrópu sem selur lyf, en apótek verður í versluninni, sem og boðið verður upp á sjónmælingar sjóntækjafræðings.