Áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar hefur verið lagt fram á Alþingi að nýju. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi ekki lengur einkaleyfi til sölu áfengis og verði þar með Tóbaksverslun ríksins.

Áþekkt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en var ekki tekið til atkvæðagreiðslu vegna tímaskorts. Hér má lesa um afdrif þess.

Sex ára fangelsi fyrir brot á lögunum

Í nýja frumvarpinu, sem er svipað því fyrra, er meðal annars gerð sú breyting að sérstaklega er gert ráð fyrir sérverslunum áfengis, en þær voru ekki nefndar berum orðum í fyrra frumvarpi þó ekkert hafi í sjálfu sér útilokað að þær yrðu opnaðar. Sérverslanir munu ekki þurfa að halda úti sérstöku rými þar sem vörur með áfengisinnihald yfir 22% eru á boðstólum, en það munu matvöruverslanir hins vegar þurfa að gera.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um myndupptökukerfi, fyrirkomulag afmörkunar á sterku áfengi og afgreiðslutíma, svo dæmi séu nefnd. Þá er gert ráð fyrir sektum eða allt að sex ára fangelsi ef kaupmenn afhenda ungmennum áfengi eða brjóta á annan hátt gegn lögunum. Í fyrra frumvarpi voru ekki viðurlög við brotum.

Þá er reiknað með að 5% áfengisgjalds muni renna í Lýðheilsusjóð, í stað 1% eins og núverandi lög gera ráð fyrir.

Fjórir bætast í hóp flutningsmanna

Flutningsmenn frumvarpsins koma úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Bjartri framtíð og Pírötum. Enginn úr Samfylkingu eða Vinstri-grænum eru í hópi flutningsmanna, en það eru Vilhjálmur Árnason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson,  Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Willum Þór Þórsson, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Ásta Guðrún Helgadóttir.

Í hópinn hafa því bæst Hanna Birna Kristjánsdóttir, Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson, en Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem lést þann 26. júní síðastliðinn, er ekki lengur meðal flutningsmanna.