Áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar var í dag afgreitt úr Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og mælir meirihluti nefndarmanna með því að frumvarpið verði samþykkt, en nefndin gerir þó tvær breytingartillögur á frumvarpinu. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Unnur Brá og Vilhjálmur skipa meirihluta nefndarinnar í málinu auk Karls Garðarssonar, en auk þeirra mæla þeir Guðmundur Steingrímsson og Helgi Hrafn Gunnarsson með samþykkt frumvarpsins með fyrirvara. Í minnihluta nefndarinnar eru þær Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

Í fyrra komst sambærilegt áfengisfrumvarp í gegnum nefndina, en fékk ekki afgreiðslu í þinginu. Næsta skref nú er að frumvarpið verði tekið fyrir í annarri umræðu.