Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, afhenti Guðrúnu Ragnars, barnahjúkrunarfræðingi og deildarstjóra Rjóðursins, 11.071.795 krónur í dag, sem er afrakstur Takk dagsins 28. nóvember síðastliðinn. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Okkur hefur lengi dreymt um að geta gert betur við ungt fólk sem hefur dvalið í Rjóðrinu. Styrkurinn sem Fossar markaðir afhenda okkur í dag, og er afrakstur Takk dagsins í síðustu viku, verður til þess að við getum tekið það verkefni lengra og litið á þetta sem nokkurs konar stofnframlag. Vonandi mætum við svo góðum kröftum annars staðar í þjóðfélaginu sem aðstoðar okkur að vinna þetta enn lengra," er haft eftir Guðrúnu Ragnars í tilkynningunni.

Haraldur sagði að dagurinn hefði heppnast einstaklega vel. Mikilvægast væri hve allir tækju þessu framtaki vel og væru viljugir að taka þátt í deginum með þeim. Þetta væri samstarfsverkefni Fossa og viðskiptavina þeirra ásamt samstarfsaðilum.

„Þegar við kynntum okkur starfsemi Rjóðursins var ljóst að gríðarlega öflugt starf er unnið þar sem snýr að þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Við vorum ákveðin í að tileinka daginn Rjóðrinu en fundum einnig vilja stjórnenda til að gera enn betur við eldri börn og ungmenni. Þörfin fyrir hjúkrun, endurhæfingu og afþreyingu ungmenna er enn til staðar þótt þau eldist og eigi ekki lengur rétt á þjónustu frá Rjóðrinu. Það eru erfið tímamót fyrir þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra. Við vonum að framlag okkar í ár verði hvatning til þess að efla þjónustu Rjóðursins með því að opna nýja stuðningsdeild sem mætir betur þörfum eldri barna og ungmenna," segir Haraldur í tilkynningunni.

Takk dagurinn haldinn í fimmta sinn

Takk dagur Fossa markaða var haldinn í fimmta sinn í ár. Allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins renna þá til góðs málefnis. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til söfnunarinnar. Auglýsingastofan Tvist gaf vinnu sína sem tengdist þessum degi og skartgripahönnuðurinn Hildur Hafstein hannaði armbönd til styrktar átakinu.

Guðrún segir að svona stuðningur skipti gríðarlega miklu máli þótt Rjóðrið sé hluti af Landspítalanum. Í Rjóðrið koma börn sem þurfi sólarhringsumönnun og þörfum yngri barna er vel sinnt. Þar sem hópurinn er á ólíkum aldri eru þarfirnar mismunandi eins og hjá heilbrigðum börnum. „Þegar börnin verða 18 ára koma ákveðin kaflaskil þegar þau þurfa að fara frá okkur, helst á 18. ári. Þarfir þessara barna, bæði heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta, breytist ekki á þessum tímamótum og það hefur oft verið erfitt að geta ekki stutt lengur við bakið á fjölskyldunum. Sem betur fer hafa góðgerðarsamtök, félög og fyrirtæki stutt vel við bakið á okkur í þessi fimmtán ár frá því að Rjóðrið hóf starfsemi. Ég hef trú á því að með framlagi þeirra sem komu að Takk deginum munum við geta brúað bil þessa hóps út í lífið betur," segir Guðrún.