Heildartekjur ársins 2019 eru nú áætlaðar 862,2 milljarðar króna sem eru 29,6% af vergri landsframleiðslu. Lækkunin frá fjárlögum ársins 2019 nemur tæplega 30 milljörðum. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fjallað er um endurskoðun fjárlaga í samræmi nýjar upplýsingar meðal annars úr nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Þegar fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 var lagt fram í haust var reiknað með að halli á rekstri ríkissjóðs yrði um 8,8 milljarðar króna á þessu ári, en nú er reiknað með að afkoman á árinu verði neikvæð um tæpa 14,8 milljarða króna. Þetta er í annað sinn sem horfur um afkomu ríkissjóðs hafa verið færðar niður, en upphaflega var reiknað með að 28,6 milljarða afgangi af rekstri ríkissjóðs. Horfurnar nú er því 43,4 milljörðum lakari en fjárlagafrumvarp ársins 2019 reiknaði með.

„Sé miðað við stöðuna frá því í sumar er meginskýring lakari afkomu nú mun lægri tekjur en voru áætlaðar þá. Heildartekjur ársins 2019 eru nú áætlaðar 862,2 ma. kr., sem eru 29,6% af VLF. Lækkunin frá fjárlögum ársins 2019 nemur tæplega 30 mö. kr.

Þar af lækka skattar og tryggingargjöld um tæplega 22 ma. kr. frá fjárlögum. T.d. lækkar fjármagnstekjuskattur um 6,2 ma. kr. og tekjuskattur lögaðila um 5,5 ma. kr. Þrátt fyrir áföllin í efnahagslífinu er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga verði 1,1 ma. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Reiknað er með að virðisaukaskattur og aðrir óbeinir skattar lækki um 8,3 ma. kr. frá fjárlögum. Sú breyting helst í hendur við fækkun ferðamanna og minni vöxt einkaneyslu en reiknað var með. Hagstofan áætlar nú að einkaneysla hækki um 1,8% á árinu í stað 3,6% líkt og reiknað var með í upphafi ársins,“ segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans frá því morgun.

Auk samdráttar í tekjum ríkisins er reiknað með að heildarútgjöld ríkissjóðs verði 13,6 milljörðum króna hærri en áætlun fjárlaga.