Hagnaður Arion banka á 2,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi sem er milljarði minna en á sama tímabili fyrir ári. Ariðsemi eigin fjár nam 4,3% en var 5,9% fyrir ári. Benedikt Gíslason, nýr bankastjóri Arion banka, segir afkomuna ekki vera nógu góðaHeildareignir námu 1.233 milljörðum króna í lok júní 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 og eigið fé nam 195 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 22,8% í lok júní 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,4% í lok júní 2019, samanborið við 21.2% í árslok 2018.

Benedikt segir þó jákvæð teikn á lofti þrátt fyrir að arðsemin sé ekki nógu góð. „Það er engu að síður jákvætt að grunnstarfsemi bankans þróast í rétta átt og hreinar vaxtatekjur halda áfram að vaxa, hvort sem við miðum við fyrsta ársfjórðung þessa árs eða annan ársfjórðung síðasta árs. Gæði lánabókar bankans eru áfram góð en nokkuð hefur hægt á í efnahagslífi landsins og má sjá þess annars vegar merki í samdrætti lánabókar og hins vegar í niðurfærslum lána. Samsetning lánabókarinnar er jafnframt að breytast sem endurspeglar áherslu bankans á arðsemi umfram vöxt. Þóknanatekjur eru áfram stöðugar og afkoma af tryggingastarfsemi Varðar, dótturfélags bankans, var góð á tímabilinu. Kostnaður í starfsemi bankans er að þróast með réttum hætti en eitt af verkefnum okkar á næstunni verður að gera enn betur í þeim efnum.“