Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 3,4 milljarða króna á 1. ársfjórðungi 2019 eða sem nemur 0,5% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi dregist saman um 2,4% frá 1. fjórðungi 2018. Samdrátturinn skýrist aðallega af lægri arðgreiðslum fjármálafyrirtækja en á 1. ársfjórðungi 2018 var tekjufærður arður upp á 21,5 milljarða króna samanborið við tæpa 5,7 milljarða króna á 1. ársfjórðungi 2019. Áætlað er að heildarútgjöld hafi aukist um 8,1% á 1. ársfjórðungi 2019 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er áætlaður 34,4% af heildarútgjöldum hins opinbera.