Rekstrarhagnaður hótela og gistiheimila, að teknu tilliti til afskrifta, dróst saman í fyrra, nam 8,5 milljörðum króna eða um 9,3% af tekjum. Afkoman dróst saman um 700 milljónir króna milli áranna 2017 og 2018 en var enn meiri árið 2016. Þetta kemur fram í nýútkominni Hagsjá Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að rekstrarhagnaðurinn sé enn hár í sögulegu ljósi en hann náði hæstu hæðum árið 2016 þegar hann var 12 milljarðar króna og 14,7% tekjum. Þar kemur enn fremur fram að rekstrarhagnaður á herbergi hafi dregist saman eða um 13,8% milli ára eftir að hafa lækkað um 28,4% milli áranna á undan.

„Lækkandi rekstrarhagnað milli 2016 og 2017 má einfaldlega skýra með því að rekstrarkostnaður jókst meira en rekstrartekjur. Tekjurnar jukust um 6,8 ma.kr. árið 2017, eða 8,4%, og 3,6 ma.kr. árið 2018, eða 4,1%. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 9,4 ma.kr, eða 14,3% árið 2017 og 4,2 ma.kr. árið 2018, eða 5,6%,“ segir í Hagsjánni.

Hækkun á kostnaðarhliðinni má rekja til aukins launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar utan vöru- og hráefniskostnaðar en sá liður blés út um tæpan fjórðung milli áranna 2016 og 2018.

Tölurnar ná til 659 rekstraraðila en tekjur þeirra námu 92 milljörðum króna í fyrra. Nokkur stór fyrirtæki í geiranum setja sérstakan svip á niðurstöðurnar en til að mynda voru tekjur Icelandair hótela um 13,2% af heildinni.