Afkoma Kviku banka var umfram væntingar á þriðja ársfjórðungi samkvæmt ókönnuðu bráðabirgðauppgjöri bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku til Kauphallarinnar.

Bætt afkoma er einna helst sögð skýrast af betri afkomu af eignastýringarstarfsemi, sterkri verkefnastöðu í fyrirtækjaráðgjöf og hækkun hreinna fjárfestingatekna.

Því hefur afkomuspá bankans verið uppfærð þannig að miðgildi hagnaðarspár fyrir árið hækkar um 150 milljónum krónum, eða á bilinu 2-2,3 milljarðar króna í stað 1,7-2,3 milljarða króna áður.

Hagnaður Kviku á fyrstu níu mánuðum ársins er áætlaður um 1,53 milljarðar króna fyrir skatta, en var tæplega 2 milljarðar  króna á sama tímabili árið 2019. Kvika gaf út fyrr á þessu ári að kórónuveirufaraldrinum myndi kosta bankann um 500 milljónir króna.