Hagnaður Steypu­stöðvarinnar og dóttur­fé­laga, Hóla­skarðs og Loft­orku, nam 312 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 43,5% frá fyrra ári.

Velta fé­lagsins dróst saman um 9% milli ára og nam tæpum 8 milljörðum króna. Rekstrar­gjöld drógust saman um 7,4% og námu 7,4 milljörðum.

Launa­kostnaður nam 2,9 milljörðum og dróst saman um 4% á árinu, en fjöldi árs­verka var 235 á árinu, saman­borið við 259 árs­verk á árinu 2019.

Eignir fé­lagsins námu 7,1 milljarði króna í lok árs 2020 og voru 5,7% lægri en ári fyrr. Eigið fé nam 2,3 milljörðum, 1,7% lægra en ári fyrr, og skuldir námu 4,9 milljörðum, 7,5% lægri en ári fyrr. Eigin­fjár­hlut­fall sam­stæðunnar var því um 32% í lok árs, litlu hærra en ári fyrr.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að far­aldurinn hafi haft þau á­hrif að dregið hafi úr tekjum og kostnaður aukist, en þrátt fyrir það leiki ekki vafi á rekstrar­hæfi fé­lagsins enda fjár­hagurinn sterkur. Þá kemur fram að stjórn fé­lagsins hafi lagt til að greiddur verði allt að 250.000.000 kr. arður til hlut­hafa vegna reksturs síðasta árs.

Björn Ingi Victors­son er for­stjóri Steypu­stöðvarinnar.