Afkoma þriðja ársfjórðungs Origo er betri en áður var áætlað var. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar. Í áður birtum fjárfestakynningum gerði félagið ráð fyrir að afkoma á þriðja ársfjórðungi yrði svipuð og síðustu ár.

Við vinnslu árshlutauppgjörs þriðja ársfjórðungs 2018 hefur komið í ljós að rekstrarniðurstaða félagsins er töluvert hærri en á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Áætlaðar tekjur félagsins eru svipaðar og  á 1. og 2. ársfjórðungi.

Áætlað er að rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) verði á bilinu 350 milljónir krónar til 370 milljónir króna samanborið við 229 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi árið 2017.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) á þriðja ársfjórðungi er áætlaður á bilinu 170 milljónir króna til 200 milljónir króna samanborið við 86 milljóna króna rekstrarhagnað á sama tímabili í fyrra.

Hærri tekjur af þjónustusamningum sem og töluverð tekjuaukning og bætt afkoma hjá Tempo eru meðal helstu skýringa á betri rekstrarniðurstöðu í fjórðungnum.

Félagið vinnur enn að árshlutauppgjöri og því geta ofangreindar tölur tekið breytingum.

Félagið mun birta uppgjör þriðja ársfjórðungs 2018 eftir lokun markaða þann 31. október næstkomandi. Af því tilefni býður Origo hf. til opins kynningarfundar þann 1. nóvember kl. 08:30 í fundarsal félagsins í Borgartúni 37, 105 Reykjavík.