Samstæða Sautján ehf., sem samanstendur af félaginu og 53,4% eignarhlut í dótturfélagi þess NTC ehf., hagnaðist um 43 milljónir króna á síðasta ári en afkoman ríflega fimmfaldaðist frá fyrra ári, þegar hún nam 8,3 milljónum.

Velta dróst saman um 3,3% milli ára og nam 2,1 milljörðum en rekstrargjöld drógust saman um 8,5% og námu 1,9 milljörðum. Rekstrarhagnaður ríflega tvöfaldaðist og nam 167 milljónum króna.

Mestu munaði um 24% lækkun á launum og launatengdum gjöldum, úr 547 milljónum í 416 milljónir, en meðalfjöldi starfsmanna lækkaði úr 149 í 118 milli ára.

Eignir samstæðunnar námu 910,5 milljónum króna í lok árs, samanborið við 864,1 milljón króna ári fyrr. Eigið fé nam 88,8 milljónum og nærri tvöfaldaðist frá fyrra ári þegar það nam 45,8 milljónir en skuldir stóðu svo til í stað milli ára og námu 821,7 milljónum króna. Fyrir vikið jókst eiginfjárhlutfall samstæðunnar úr 5,3% í 9,8% milli ára.

Í skýrslu stjórnar með samstæðureikningnum kemur fram að faraldurinn hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur og starfsemi samstæðunnar í upphafi síðasta árs. Samstæðan hafi að hluta nýtt þau úrræði stjórnvalda sem í boði voru, samið hafi verið um tímabundna frestun á leigugreiðslum, pantanir afturkallaðar og úr þeim dregið ásamt því að lækka kostnað að því marki sem mögulegt var. Þetta hafi skilað betri rekstrarniðurstöðu en á horfðist í upphafi faraldurs og er gert ráð fyrir góðu rekstrarári á árinu 2021.

Sautján ehf. er í eigu Svövu Johansen og er hún stjórnarformaður félagsins.