Samanlagður hagnaður stóru tryggingafélaganna þriggja, VÍS, Sjóvár og TM, nam rúmlega 2,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og jókst um 540 milljónir króna frá sama tíma í fyrra eða um 29%. Hagnaður VÍS nam 936 milljónum króna og jókst um 11% milli ára, hagnaður Sjóvár nam 1.053 milljónum króna og jókst um 41% milli ára auk þess sem hagnaður TM nam 433 milljónum sem er 50% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Betri afkoma af fjárfestingarstarfsemi

Bætt afkoma félaganna á milli ára kemur fyrst og fremst til af betri árangri fjárfestingarstarfsemi samfara hagstæðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum á fjórðungnum. Samtals námu fjárfestingartekjur félaganna þriggja tæplega 3,5 milljörðum á fjórðungnum og jukust um tæpan milljarð milli ára eða um 36%.

Fjárfestingartekjur VÍS námu 1.367 milljónum á fjórðungnum og jukust um 34% frá sama tímabili í fyrra, hjá Sjóvá jukust þær um 46% og námu 1.158 milljónum auk þess sem fjárfestingartekjur TM námu 952 milljónum og jukust um 29% milli ára. Nafnávöxtun fjárfestingareigna á tímabilinu var 4,1% hjá VÍS samanborið við 2,9% í fyrra, 3,5% hjá Sjóvá en var 2% í fyrra og 3,3% hjá TM úr 2,6% á fyrsta ársfjórðungi 2018. Til samanburðar má þó nefna að markaðsvísitala GAMMA hækkaði um 6,8% á tímabilinu.

Eigin tjón hækkuðu hraðar

Eigin iðgjöld tryggingafélaganna þriggja sem skilgreind eru sem tekjufærð iðgjöld að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldatekjum námu samtals tæplega 13,8 milljörðum króna á fjórðungnum og jukust um 6,5% milli ára.

Hjá VÍS námu eigin iðgjöld tæplega 5,4 milljörðum á fjórðungnum og jukust um 5,6% milli ára, hjá Sjóvá námu þau um 4,2 milljörðum og jukust um 11,3% og hjá TM námu þau um 3,8 milljörðum og jukust um 0,7% frá sama tímabili í fyrra. Á sama tíma jukust eigin tjón, sem eru tjón tímabilsins að frádregnum hluta endurtryggjenda í tjónum tímabilsins, um 9,9% miðað við fyrsta ársfjórðung 2018 og námu samtals rúmlega 11,3 milljörðum. Eigin tjón hækkuðu mest hjá Sjóvá eða um 15,9% og um 13% hjá VÍS á meðan hækkunin var 0,7% hjá TM

Verri afkoma af grunnrekstri

Þegar litið er til starfsþátta tryggingarfélaga sem skiptast annars vegar í vátryggingarstarfsemi og fjármálastarfsemi hins vegar kemur bersýnilega í ljós að bætt afkoma af fjármálastarfsemi félaganna   er meginskýringin á bættri afkomu milli ára. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam samtals 417 milljónum króna á tímabilinu hjá félögunum þremur og dróst saman um 42% milli ára. Afkoman af grunnrekstrinum hjá VÍS nam 222 milljónum og dróst saman um 49% milli ára, hjá Sjóvá nam hún 411 milljónum og jókst um 4% á meðan neikvæð afkoma var af vátryggingarstarfsemi TM á tímabilinu um 216 milljónir samanborið við 114 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Afkoma af fjármálastarfsemi fyrir skatta nam hins vegar samtals um 2,3 milljörðum á tímabilinu og jókst um 77% milli ára. Hjá VÍS var afkoma af fjármálastarfsemi 852 milljónir og jókst um 70% milli ára, hjá Sjóvá nam hún 769 milljónum og jókst um 83% og hjá TM var afkoman 669 milljónir og jókst um 79% frá sama tímabili í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .