Afkoma fjögurra stærstu bílaleiga landsins, Bílaleigu Akureyrar (Höldur), Avis (ALP), Hertz (Bílaleiga Flugleiða) og Blue Car Rental, hefur dregist töluvert saman á síðustu árum. Hagnaður þeirra á síðasta ári nam samtals 197 milljónum króna og dróst saman um 7 milljónir milli ára. Sé miðað við árin 2016 og 2015 hefur afkoman hins vegar versnað um rúman milljarð en hagnaður þeirra nam samanlagt 1.271 milljón árið 2016 og 1.171 milljón árið 2015.

Breyting á afkomu á síðasta ári var nokkuð ólík milli félaga. Bílaleiga Akureyrar hagnaðist um 114 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaður hennar um 36 milljónir milli ára. Avis skilaði 38 milljóna hagnaði en um 135 milljóna viðsnúningur varð á rekstri bílaleigunnar frá fyrra ári þegar hún tapaði 97 milljónum króna. Hertz tapaði hins vegar 82 milljónum króna og versnaði afkoman um 172 milljónir á milli ára. Þá dróst hagnaður Blue Car Rental saman um 6 milljónir milli ára en félagið skilaði 127 milljóna hagnaði á síðasta ári.

Tekjur fyrirtækjanna fjögurra námu samtals rúmlega 18,1 milljarði og jukust um 7,5% milli ára. Samanlagðar tekjur bílaleiganna fjögurra hafa aukist töluvert á síðustu árum en þær voru um 12,8 milljarða árið 2015 og hafa því aukist um 41% á fjórum árum. Tekjur Bílaleigu Akureyrar námu 6.617 milljónum króna og jukust um 3,2% milli ára. Tekjur Avis námu 4.975 milljónum og jukust um 8,2%, tekjur Hertz námu 3.485 milljónum og drógust saman um 2,4% milli ára. Þá námu tekjur Blue Car Rental 3.059 milljónum og jukust um 33,7% milli ára.

Þess ber þó að geta að tekjur sumra fyrirtækjanna koma ekki bara til af bílaleigu einni og sér heldur sinna einnig skyldum og annars konar rekstri. Leigutekjur bílaleiganna námu samtals rétt tæpum 16 milljörðum króna og jukust um 7,4% milli ára. Leigutekjur Bílaleigu Akureyrar námu tæplega 5,4 milljörðum og jukust um 3,1%, hjá Avis námu þær rúmlega 4,9 milljörðum og jukust um 8,4%, hjá Hertz námu þær rúmlega 2,9 milljörðum og lækkuðu um 2% og þá námu leigutekjur Blue Car Rental tæplega 2,8 milljörðum og jukust um 28,7%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .