Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar og fjárfestir, segir í umræðuþræði á Facebook ekkert leyndarmál að hann eigi félag í Lúxemborg. Umræðuþráðurinn, sem lesa má her, fjallaði um skattaskjól, og var þar talað um að Lúxemborg gæti flokkast sem slíkt.

Vilhjálmur svaraði því þá til að ekki ætti að nefna Lúxemborg í sömu andrá og Panama og Tortóla - þar eð hlutafélög þarlendis eru ekki aðeins skattlögð hærra en á Íslandi heldur gildir einnig tvísköttunarsamningur milli Lúxemborgar og Íslands.

Vilhjálmur var þá sakaður um að hafa eignarhaldsfélag í felum í Lúxemborg - en hann svarar því að félagið þar sem er í hans eigu sé ekkert leyndarmál. Hann eigi það ekki til að forðast skatta, heldur vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og efnahagslegrar áhættu á Íslandi:

„Ég á félag í Lúxemborg, Jón, það er ekkert leyndarmál. Það er fullskattlagt félag sem greiðir 21,84% tekjuskatt. Skattar eru ekki ástæðan fyrir því að ég vil hafa félagið þar, heldur krónan, gjaldeyrishöftin og pólitísk og efnahagsleg áhætta á Íslandi. Ef við værum í ESB væri engin ástæða til að hafa félagið erlendis. Hlutir mínir í sprotafyrirtækjum hér innanlands eru hins vegar að langmestu leyti í íslensku félagi."