Nóg framboð er á lóðum í öllum fjórum sveitarfélögunum á Reykjanesi og eru áætlanir um verulega íbúðauppbyggingu, auk þess sem skortur er á vinnandi höndum á svæðinu. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir það ekki hafa verið markmið hjá bænum að ná því að verða fjórða stærsta sveitarfélag landsins líkt og gerðist á dögunum.

„Það var ekkert sérstakt keppikefli hjá okkur að verða stærri en Akureyri, en þetta er engu að síður ánægjulegt. Það hefur verið algerlega fordæmalaus íbúafjölgun hér undanfarin ár, eða um 4 til 5 þúsund síðan árið 2014, sem kallar á alls konar viðbrögð og uppbyggingu af hálfu bæjarins,“ segir Kjartan Már sem nefnir í því samhengi uppbyggingu nýs grunnskóla í Innri-Njarðvík.

„Fjölgunin tengist mest mikilli eftirspurn eftir vinnuafli á Keflavíkurflugvelli, en það er ekki allt hjá Isavia sjálfu, heldur hafa skapast fjölmörg bæði bein og óbein störf í kringum alþjóðaflugvöllinn. Einnig hefur verið uppbygging í kringum gagnaverin. Þetta fór síðan saman við mikið framboð á lausu húsnæði á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu, en því til viðbótar þá var mikið að gerast hér fyrir hrun, og hafði verið byrjað á því að byggja mikið af íbúðarhúsnæði, steypa grunninn eða jafnvel komið upp í hálfbyggðar blokkir sem menn tóku síðan til og kláruðu allt meira og minna síðustu árin. Því til viðbótar er búið að útdeila hér alveg gríðarlegu magni af lóðum.“

Sem dæmi um fjölgunina nefnir Kjartan Már að árið 2016 voru 38 íbúðir í byggingu í bænum, en árið 2017 voru þær 329 og 340 í fyrra. Á þessu ári og því næsta eru svo alls 707 íbúðir í byggingu sem koma á markað, auk þess sem um 1.000 íbúðir eru á teikniborðinu. Reiknar hann með að þörfin sé um 300 til 350 íbúðir á ári næstu árin. „Í stóra planinu fyrir næstu tvo til þrjá áratugina er gert ráð fyrir svæðum þar sem hægt er að þróa 15 til 20 þúsund manna byggð til viðbótar,“ segir Kjartan Már.

„Við höfum verið að einbeita okkur að uppbyggingu nýju hverfanna, annars vegar í Innri-Njarðvík og svo er Byggingarfélag Gunnars og Gylfa að byggja upp stórt og mikið hverfi hérna sem heitir Hlíðarhverfi þar sem við munum á næstu misserum þurfa að fara í uppbyggingu á þjónustu í. Því til viðbótar erum við í góðu samstarfi við Kadeco fyrir hönd ríkisins um skipulagsvinnu á gamla varnarsvæðinu á Ásbrú og Miðnesheiði þar sem við sjáum fyrir okkur mikla þróun og fjölgun íbúðarhúsnæðis og fyrirtækja. Síðan opnuðum við í fyrra fyrir stórt og mikið atvinnuhverfi sem heitir Flugvellir en þær eru ætlaðar fyrir flugtengda starfsemi, bílaleigur og fleira og seldust þar fljótt upp allar lóðir. Loks er mikið af lausum lóðum fyrir ýmiss konar stór- og léttiðnað og þjónustu, og mikil tækifæri með góðri hafnaraðstöðu, í Helguvík.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Reykjanes, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð og hægt er gerast áskrifandi hér .