Eggert B. Ólafsson, lögmaður hjá Samkeppnisráðgjöf, segist efast um að Hagar kæri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í samrunamáli Haga og Lyfju til áfrýjunarnefndar og að málið endi fyrir dómstólum.

Síðastliðinn mánudag ógilti Samkeppniseftirlitið samruna smásölufélagsins Haga hf. og lyfsölufélagsins Lyfju hf. Í rökstuðningi Samkeppniseftirlitsins, sem birtur var daginn eftir, kom fram að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og þar með skaðað samkeppni, einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði, almenningi og atvinnulífi til tjóns. Eftirlitið túlkaði samrunann sem láréttan samruna en ekki samsteypusamruna.

Í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar á mánudaginn kom fram að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins væri „vonbrigði“ og að fé- lagið muni taka hana til sérstakrar skoðunar.

„Ég hef ekki séð það áður í samrunamáli hjá Samkeppniseftirlitinu að það hafi verið framkvæmdar svo ítarlegar kannanir á tilteknum markaði og viðhorfum neytenda. Þetta er langítarlegasta könnunin sem gerð hefur verið á svona samrunamáli til þessa. Rökstuðningur eftirlitsins virðist einfaldlega vera borðliggjandi. Mér sýnist því að ákvörðunin verði ekki kærð. Ég myndi alla vega hugsa mig vel um áður en ég færi að kæra þetta.“

Í sögu samrunaeftirlits hér á landi hefur það einungis gerst einu sinni að Hæstiréttur hafi leyft samruna sem samkeppnisyfirvöld höfðu bannað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .