Íbúar á landsbyggðinni með lögheimili fjarri höfuðborginni hafa frá og með í dag kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Kerfið sem tekið hefur verið upp ný byggir á svokallaðri skosku leið sem áætlanir hafa verið um að taka upp til að styðja við innanlandsflug í landinu samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn allt að 600 milljónum króna á ársvísu og 200 milljónum króna á þessu ári. Gert er ráð fyrir þeim fjárframlögum í samgönguáætlun sem samþykkt var í júní síðastliðnum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði verkefnið sem fengið hefur nafnið Loftbrú með formlegum hætti á kynningarfundi í flugstöðinni á Egilsstöðum í dag. Þar með geta um 60 þúsund Íslendingar notið 40% afsláttar af innanlandsflugi allt að þrisvar sinnum á ári, en það sem eftir lifir þessa árs gildir afslátturinn einu sinni.

Markmiðið með Loftbrú er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini.

Afslættir af flugi til og frá höfuðborgarsvæðinu

Loftbrú veitir afsláttarkjör til allra þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. 60 þúsund íbúar á þessum svæðum munu eiga kost á afsláttarkjörum Loftbrúar.

Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Þeir sem vilja nýta afsláttarkjörin auðkenna sig með rafrænum skilríkjum á Ísland.is og fá þar sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga.

Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir). Vegagerðin mun fara með umsjón og framkvæmd Loftbrúar í samvinnu við ráðuneytið en stofnunin heldur utan um allar ríkisstyrktar almenningssamgöngur.

„Í mínum huga er Loftbrú ein að mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.